fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Nýtt blogg

Margir virðast vera að lesa þessa síðu ennþá svo mig langar að láta vita að ég er hætt hér vegna tæknilegra örðugleika og farin yfir á blog.central
http://www.blog.central.is/snatason/

Verið velkomin þangað :)

3:35 e.h.
|

mánudagur, apríl 24, 2006

Gleðilegt sumar!!

Þá eru páskarnir að baki og sumarið komið og væntanlega kominn tími á blogg. Bloggleysið hefur ekki bara verið leti í mér eða mikilli vinnu og ferðalögum að kenna því ég er búin að gera ansi margar tilraunir til að blogga, en blogger hefur verið eitthvað bilaður.
Páskahelgin var meiriháttar skemmtileg. Fyrir þá sem ekki vita það þá tókum við Elli rútu á leigu og fórum með meirihlutann af móðurfjölskyldunni minni í ferðalag á föstudaginn langa. Mamma og Stig héldu að við ætluðum bara tvö með þau á okkar bíl og urðu heldur betur hissa þegar við mættum með allt liðið á hótelið til þeirra. Öll fjölskyldan var búin að vera ljúgandi í margar vikur og enginn talaði af sér.
Úr þessu varð hið skemmtilegasta ferðalag sem endaði á grillveislu í bústaðnum hjá Stefaníu og Geira. Við skoðuðum Gullfoss og Geysi og reyndum að sýna Stig Þingvallavatn en það sást ekki fyrir snjókomu. Veðurstofan var búin að spá roki og rigningu þennan dag, en það gekk sko alls ekki eftir. Við fengum hins vegar allar hinar tegundirnar af veðri.
Í grillveislunni vöktu talstöðvar í höndunum á Ellert frænda mikla kátínu viðstaddra, sérstaklega þegar hann fékk svar frá “Hjálparsveit skáta í Borgarnesi”. Nesquick, Sviss Miss, Cocoa Puffs og Cheerios var umræðuefnið þeirra á milli og ég held ég hafi sjaldan hlegið eins mikið.
Hér má sjá nokkrar myndir úr ferðalaginu og grillveislunni. Einnig eru til nokkrar vídeómyndir, en þær verða ekki settar á netið. Þeir sem voru með í ferðinni og veislunni geta fengið svoleiðis sendar í tölvupósti.
Á páskadag var páskaeggið opnað. “Góður þegn þarfnast engra forfeðra” var málshátturinn þetta árið og finnst mér hann bara furðulegur. Ég skil hvað átt er við, en ef maður tekur hann bókstaflega þá er hann ansi kjánalegur, því maður verður ekki góður þegn án forfeðra... maður verður ekki einu sinni þegn, því öllu þurfum við jú forfeður til að verða til, eða hvað?
Eftir að við höfðum úðað í okkur súkkulaði og brjóstsykri skelltum við okkur í Bláa lónið með mömmu, Stig, Heiðrúnu, Irisi og Frikka og þeirra strákum. Þar lágum við í bleyti og mökuðum á okkur hvítri leðju þar til allir voru orðnir svangir. Þá fóru flestir upp úr og keyptu sér pylsur. Mamma og Stig komu svo í kvöldmat hjá okkur um kvöldið og fengu grillaðan lambahrygg og lærissneiðar. Mamma hafði á orði að Stig færi bráðum að jarma eftir allt þetta lambaát. Hann fékk líka að smakka folaldakjöt um helgina og virtist líka það vel, en Svíar hafa víst ekki gert mikið af því að borða hesta frekar en aðrar þjóðir. Einnig kom í ljós að honum fannst harðfiskur og brennivín bara hið mesta sælgæti :-) Mamma þyrfti að koma með hann hingað á þorranum til að athuga hvað hann segði þá um íslenskan mat ;-)
Læt þetta gott heita í bili.

http://public.fotki.com/snatason/pskafer/

11:11 f.h.
|

laugardagur, apríl 22, 2006

prufa

prufa

12:11 e.h.
|

föstudagur, mars 31, 2006

Vegna fjölda áskorana...

Allt í lagi, ég skal blogga. Síðustu vikur hafa verið frekar klikkaðar í vinnunni svo ég hef bara ekki haft tíma til að gera neitt skemmtilegt. Gaf mér þó tíma til að skreppa í fermingarveisluna hjá Aldísi frænku og það var bara gaman. Góður matur og skemmtilegt fólk.
Eftir veisluna skelltum við hjónin okkur í IKEA og eyddum fullt af peningum og það var líka gaman :-) Við keyptum okkur geisladiskahillur sem voru í svo löngum kössum að ég þurfti að sitja nánast undir mælaborðinu á leiðinni heim.
Þegar heim var komið voru hillurnar skrúfaðar saman og settar upp og þegar það var búið fórum við að raða í þær. Þá komumst við að því að við eigum bara ekki nógu mikið af geisladiskum, svo nú þarf að kaupa fleiri svoleiðis :-)
Emil situr hér hjá mér og er að biðja mig að flytja nýjustu fréttir af sér. Hann var rosalega duglegur í gærkvöldi. Hann ákvað nefnilega að skella sér í vorhreingerningar (hann fékk að vísu smá aðstoð frá mömmu sinni). Bólin hans voru hrist úti á svölum, dallarnir hans fóru í uppþvottavélina, það var sett hreint á rúmið hans og svo endaði hann á því að skella sér í bað. Hann var nú ekkert lítið montinn þegar hann var búinn að þessu öllu og núna er hann glansandi fínn og ilmandi. Hann er í miklu hárlosi núna og það eykst alltaf þegar hann er nýbúinn í baði, svo hann benti á að það væri betra að fara í bað núna til að hárlosið verði farið að minnka þegar amma hans kemur í heimsókn :-)
Jæja, best að halda áfram að vinna... þarf að undirbúa fund sem verður með ráðuneytisfólki á mánudaginn. Eins gott að vera með allar staðreyndir á hreinu...
Ciao!

10:40 f.h.
|

fimmtudagur, mars 09, 2006

Kommentasúpa...

Jæja, fyrst að kommentin á síðasta bloggi eru orðin 40 þá er nú sennilega kominn tími til að tjá sig eitthvað hérna :-)
Ég var nú hálf hissa hvað fólk var lengi að taka við sér að kommenta, bjóst nú við einhverju rifrildi um efni bloggsins, en í heila viku gerðist ósköp lítið. Þá skondraðist hún Breeeenja frænka inn á bloggið og kommentaði alveg á fullu... og vakti þá loksins þau viðbrögð sem ég bjóst við í upphafi ;-)
Ég hef nú reyndar ósköp lítið til að blogga um, allir dagar snúast um vinnu og aftur vinnu... og skattaskýrsluna þegar vinnudegi lýkur. Ég er reyndar bara að gera okkar skýrslu og ætla ekki að taka að mér eina einustu aðra. En okkar skýrsla er nú bara frekar flókin núna, svo ég held ég verði bara svei mér þá að hringja í þjónustusímann hjá RSK og óska aðstoðar...
Helgin mun verða róleg... Iris var reyndar að reyna að fá mig með í kalllausa systraferð, en ég held ég sleppi því, er orðin svo rosalega heimakær eitthvað og alveg hætt að nenna öllu flakki... það hlaut nú að koma að því, ekki satt? Enda lítil þörf á því að flakka lengur þegar það sem ég var alltaf að leita að er hérna heima :-)
Núna ætla ég að standa upp frá tölvunni og fara að horfa á Friends eða eitthvað.
Ha det!

5:32 e.h.
|

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Til hamingju Ísland!

Jæja, eruð þið ekki hress? Ekki ég... er með kvef og mína venjulegu nefsýkingu sem ég fæ reglulega. Orðin dálítið þreytt á henni, enda er hún búin að koma á þriggja mánaða fresti í níu ár!
Annars er bara lítið að frétta, lífið gengur sinn vanagang. Við Emil sitjum við tölvuna (hann liggur nú reyndar meira við lappirnar á mér) allan daginn og Elli þvælist um skagann á vörubíl á meðan.
Hafið þið spáð í hvað myndi gerast ef við myndum asnast til að vinna Eurovision einhverntíma? Íslendingar eru með svo mikið stórmennskubrjálæði að við verðum alltaf að vera flottust og sterkust og best í öllu. Ef við myndum vinna keppnina yrði keppnin hjá okkur að vera stærri og flottari í alla staði en hjá öðrum þjóðum. Ríkisútvarpið yrði því að punga út ansi mörgum aurum fyrir stærstu og flottustu Eurovisionsýningu allra tíma. Þar sem RÚV á nú enga aukasjóði eftir þegar búið er að kaupa leiðinlegasta menningarefni í heimi og fullt af fótboltaleikjum þá yrði að hækka skattana í landinu til að eiga fyrir Eurovision. Og hver borgar skattana?
Þannig að nú segi ég bara TIL HAMINGJU ÍSLAND! Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af að skattarnir verði hækkaðir á næsta ári til að halda söngvakeppni :-)
(Svona fyrir ykkur sem búið í útlöndum og vitið ekkert hvað ég er að tala um þá er þetta framlag Íslendinga til Eurovision í ár)
Góðar stundir :-)

5:46 e.h.
|

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Hellú!

Jæja, er ekki kominn tími á blogg?
Hjá mér er frekar lítið að frétta þessa dagana, það er svo mikið að gera í vinnunni að ég geri eiginlega bara ekkert annað. Er alltaf að reyna að gera fjárhagsáætlun fyrir árið, en það er frekar erfitt þegar ákveðinn ráðherra er alltaf að skipta um skoðun, svo ég þarf að reikna allt aftur og aftur og aftur...
Emil slasaði sig í fyrradag og er núna haltur á tveimur fótum. Hann var úti að hlaupa og skar sig í lappirnar á einhverju og er búinn að vera voða lítill í sér síðan. Hann er nú samt allur að koma til. Hann er ótrúlega rólegur þegar við erum að skoða á honum lappirnar, treystir okkur greinilega alveg fyrir sínum sárum.
Við keyptum okkur frystikistu í byrjun mánaðarins og erum búin að vera að dunda okkur við að kaupa mat í hana. Við eigum núna von á tveimur lambaskrokkum að norðan, ef þeir komast þá suður vegna veðurs.
Kistan átti að fara upp á loft, en dyrnar þangað voru EINUM cm of mjóar svo það gekk ekki... hún verður því að deila herbergi með þvottavélinni og þeim kemur nú bara ágætlega saman. Snúrurnar voru teknar niður og færðar upp á loft í staðinn, svo nú er alltaf hálfgerð útilykt af þvottinum og það er sko ekki slæmt :-) Þetta er þó bara tímabundið ástand, því það stendur til að brjóta niður eins og tvo veggi, einn til að opna betur upp á loft og annan til að stækka bleika og bláa baðherbergið. Sem sé miklar framkvæmdir framundan... vonandi á þessu ári, en það fer eftir fjárhag.Jæja, ætla að halda áfram að reikna. Bless í bili...

2:32 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker